Magnea Þórey Hjálmarsdóttir hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Icelandair Hótela eftir um 16 ár sem stjórnandi félagsins. Núverandi staðgengill hennar, Ingólfur Haraldsson, mun taka formlega við starfinu um mánaðamótin. Þetta kemur fram í tilkynningu á starfsmannavef félagsins.

Fram kemur að Ingólfur, sem er með BS gráðu í Viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík, hafi starfað hjá Icelandair Hótelum frá árinu 1993. Hann hafi komið víða við í rekstri félagsins, meðal annars hafi hann stýrt þó nokkrum Eddu hótelum á sínum fyrstu árum, síðar fyrrum hótel Loftleiðum en hann hafi leitt Hilton Reykjavík Nordica allt frá árinu 2004. Starf hótelstjóra Hilton Reykjavík Nordica mun verða auglýst á næstu dögum.

Hildur verður aðstoðarframkvæmdastjóri

Þá segir að Hildur Ómarsdóttir, sem stýrt hefur markaðsmálum og viðskiptaþróun félagsins undanfarin ár, taki við nýju starfi aðstoðarframkvæmdastjóra keðjunnar. Hildur hóf störf hjá Icelandair Hótelum árið 2004, sem hótelstjóri fyrrum Loftleiða en starfaði síðar sem forstöðumaður sölu og markaðssviðs til fjölda ára, nú síðast sem forstöðumaður frá árinu 2016.

Hún mun eftir sem áður stýra viðskiptaþróun félagsins og endurmörkun þess og Icelandair hótelanna. Hún hefur lokið MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, auk BA gráðu í ensku og spænsku frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Stokkhólmi. Umsýsla markaðsmála verði sameinuð sölustarfi félagsins undir stjórn Kristínar Katrínar Guðmundsdóttur sem veitir sviðinu forstöðu.

Áður hafði verið tilkynnt um að Árný Hlín Hilmarsdóttir taki við starfi forstöðumanns fjármála- og rekstrarsviðs, Björk Baldvinsdóttir við starfi forstöðumanns mannauðsmála og að upplýsingadeild, sem áður tilheyrði fjármála- og rekstrarsviði, verði sér svið sem Aðalsteinn Þorbergsson veiti forstöðu.

Eftir breytingarnar sitja því eftirfarandi í framkvæmdastjórn:

  • Ingólfur Haraldsson - Framkvæmdastjóri
  • Hildur Ómarsdóttir - Aðstoðarframkvæmdastjóri
  • Árný Hlín Hilmarsdóttir - Forstöðumaður fjármála og reksturs
  • Björk Baldvinsdóttir - Forstöðumaður mannauðsmála
  • Kristín Katrín Guðmundsdóttir - Forstöðumaður sölu og markaðssetningar
  • Tryggvi Guðmundsson - Forstöðumaður fasteigna
  • Aðalsteinn Þorbergsson - Forstöðumaður upplýsinga- og tæknisviðs