Funda- og ráðstefnuaðstaða er stór þáttur af ferðaþjónustu hér á landi og nokkuð sem allir innan geirans eru að huga að. Aðspurð um innkomu tónlistar- og ráðstefnuhússins í Reykjavík segir Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, að Harpan sé komin til að vera. Því ættu allir í ferðaþjónustunni ættu að sameinast um að tala vel um hana því í henni felist mikil tækifæri.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Magneu Þóreyju í Viðskiptablaðinu. Þar er meðal annars farið yfir flókinn rekstur hótela, aukin tækifæri í ferðaþjónustunni hér á landi auk þess sem Magnea Þórey tjáir sig um mögulega opnun spilavíta hér á landi.

Hvað Hörpuna varðar kemst blaðamaður ekki hjá því að spyrja nánar út í samkeppnina við ríkið. Þið og önnur hótel hafið verið að fjárfesta mikið í funda- og ráðstefnuaðstöðu síðustu ár. Nú kemur ríkið og niðurgreiðir slíka aðstöðu í beinni samkeppni við einkaaðila, hvernig horfir það við þér?

„Vissulega eykur það við flækjustigið og skýtur skökku við,“ segir Magnea Þórey, en svo virðist sem blaðamaður hafi sjálfur sterkari skoðanir á þessu en hún.

„Við höfum s.s. gert okkar athugasemdir við þetta fyrirkomulag. Ríkið ætlaði líka að vera með fimm stjörnu hótel og menn sættu sig einhvern veginn við það fyrst, það voru engin fimm stjörnu hótel á landinu. Nú er þó stefnt að því að opna þarna fjögurra til fimm stjörnu hótel í beinni samkeppni við önnur hótel í Reykjavík,“ segir hún.

„En þrátt fyrir allt þá er Harpan komin til að vera. Við þurfum í framhaldinu að stefna að því að Reykjavík verði borg sem skarar fram úr sem funda- og ráðstefnuborg. Vínarborg í Austurríki er dæmi um slíka borg. Staðreyndin er sú að um 20% af núverandi og verðandi viðskiptavinum sækja í það sem kalla má flaggskipin, sem Harpan vissulega er. Hins vegar sækir um 80% af markaðnum til þeirra sem eru þegar að bjóða sambærilega þjónustu þó svo kannski af annarri stærðargráðu sé. Harpa mun laða að stærri viðburði til borgarinnar en samkvæmt þeim rannsóknum sem við höfum gert í öðrum Evrópuborgum munu allt að 80% viðburðartengdra viðskiptavina eftir sem áður leita til minni, sértækari þjónustuaðila. Það er í þessu eins og öðru, við þurfum bara að gera betur. Í öðrum borgum Evrópu, þar sem finna má sambærilegar aðstæður, hafa einkaaðilar staðið af sér tilkomu stærri, sambærilegra bygginga eins og Hörpu. Ég hef vissulega athugasemdir við það að ríkið sé orðið beinn aðili á þessum markaði, en ég ætla samt að taka þetta á jákvæðninni og reyna að sjá stóru myndina — sem er sú að það eru að myndast ný viðskipti sem felur í sér tækifæri fyrir alla. Það geta allir lifað við þessa skiptingu, 80-20, ef það verða til ný viðskipti.“

Nánar er rætt við Magneu Þóreyju í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.