Sumarsins 2006 verður eflaust minnst sem "magnaða sumarsins" í kjölfari velgengni Magna Ásgeirssonar í bandaríska sjónvarpsþættinum Rockstar Supernova. 60% þjóðarinnar fylgdust með Magna í hverri viku, samkvæmt áhorfskönnunum sem er sannkallað áramótaskaupsáhorf. Íslendingar sendu sms-skilaboð í símakosningum úrslitaþáttarins fyrir tæplega þrjár millljónir króna og er það lang stærsta sms-kosning sem hefur farið fram hér á landi. Búast má við að í það minnsta tvöfalt fleiri hafi kosið á netinu.

Magni kemur heim sem óumdeildur sigurvegari þrátt fyrir að sigurinn endaði í höndum Lucasar frá Kanada. En Magni er ekki eini sigurvegarinn í þessari keppni þó að stjarna hans skíni skært. Risaþáttur á borð við Rockstar Supernova skilar rokkstjörnunum sem berjast um hylli hljómsveitarinnar frægð og frama og krónum í kassann fyrir framleiðendur þáttanna. Ekki má heldur gleyma auglýsingatekjum fyrir sjónvarpsstöðvarnar sem sýna þættina og þeim bókfærða hagnaði sem myndast í bókhaldi söluskálans á Borgarfirði eystra, heimabæ Magna, sem nú selur boli og diskamottur merktar goðinu.

Ítarleg fréttaskýring er í Viðskiptablaðinu í dag.