Sex nýjar skuldabréfavísitölum verður hleypt af stokkunum í dag. Fram kemur í tilkynningu frá Nasdaq OMX-kauphallarsamstæðunni að vísitölurnar eru byggðar á óverðtryggðum og verðtryggðum markflokkum skuldabréfa sem skráðir eru á markað hér á landi. Nýju vísitölurnar eiga að veita innsýn í verðþróun markflokka, sem eru seljanlegustu ríkistryggðu skuldabréfin.

Magnús Harðarson, aðstoðarforstjóri Kauphallarinnar, segir skuldabréfamarkaðinn hér á landi afar virkan og gagnsæjan þar sem viðskipti fari að mestu fram í kauphöll, líkt og með hlutabréf. Löng hefð sé fyrir viðskiptum með ríkistryggð skuldabréf á íslenska skuldabréfamarkaðnum  og vonast til þess að þessar nýju vörur muni styðja við seljanleika á markaðnum.

„Við erum sérstaklega ánægð með að þessar nýju vísitölur skuli ryðja brautina fyrir kauphallarsjóði á íslenska markaðnum,“ segir hann.

Eiga að geta nálgast áreiðanleg viðmið

Í tilkynningu frá Kauphöllinni segir:

„Nýju skuldabréfavísitölurnar munu gagnast fjárfestum og sjóðsstjórum. Þær draga saman mikilvægar markaðsupplýsingar um stærstu og seljanlegustu eignaflokka á markaðnum, veita auðskiljanlegt viðmið fyrir  frammistöðu í fjárfestingum og geta nýst sem grunnur að kauphallarsjóðum (e. Exhange Traded Funds). Vísitölurnar eru reiknaðar í lok hvers viðskiptadags í íslenskum krónum.

Magdalena Hartman, Vice President hjá NASDAQ OMX Global Index Group, segir: „Með nýju íslensku skuldabréfavísitölunum er framboð íslensku kauphallarinnar á skuldabréfavísitölum orðið afar yfirgripsmikið. Fjárfestar, sjóðsstjórar og greiningaraðilar geta nú nálgast áreiðanlegt viðmið fyrir ríkistryggð skuldabréf.“