Magnús Ármann, eigandi Imon ehf., krefst þess að mál Landsbankans gegn honum vegna skulda félagsins við bankann verði fellt niður. Málflutningur vegna frávísunarkröfunnar fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. Hún byggir m.a. á því að málatilbúnaður Landsbankans standist ekki formkröfur og sé því vanreifaður. Auk þess er deilt um hvert var virði stofnfjárbréfa í Byr þegar bankinn tók þau yfir af félaginu í mars á síðasta ári. Það hafði mikil áhrif á stöðu félagsins þar sem það var með skuldir langt umfram eignir.

Geir Gestsson hdl., lögmaður Magnúsar Ármanns og Imon, segir að líklega þurfi að fá dómskvadda matsmenn til þess að meta virði stofnfjárbréfanna á þeim tíma sem Landsbankinn tók þau yfir. Samtals höfðar Landsbankinn sex sjálfstæð mál gegn Imon, samkvæmt upplýsingum frá Geir. Stærsta einstaka málið er vegna hlutabréfaviðskipta félagsins með bréf í Landsbankanum 3. október 2008 fyrir um fimm milljarða króna. Viðskiptin voru upphaflega frágengin 30. september en ekki keyrð í gegn fyrr en 3. október. Landsbankinn féll fjórum dögum síðar og við það urðu hlutabréfin í bankanum einskis virði. Eftir stóð rúmlega 5 milljarða skuld við Landsbankann vegna viðskiptanna.

Geir segir Landsbankann hafa lánað að fullu fyrir bréfunum en til tryggingar voru lögð fram bréfin í Landsbankanum sjálfum og stofnfjárbréf í Byr. Imon ehf. var um tíma einn stærsti einstaki eigandinn í Byr með tæplega átta prósent hlut. Hann er nú að fullu í eigu Landsbankans gamla. "Það er því ekki rétt sem komið hefur fram að þessi viðskipti hafi verið algjörlega áhættulaus fyrir Imon þar sem stofnfjárbréfin í Byr voru einnig lögð fram til tryggingar," segir Geir og vitnar til umfjöllunar fjölmiðla um viðskiptin.