„Okkur finnst þeir vera að bera saman epli og appelsínur þar sem þarna er um að ræða mismunandi tegundir af vísitölum,“ segir Magnús Harðarson aðstoðarforstjóri Kauphallarinnar í samtali við VB.is um gagnrýni Greiningar Íslandsbanka á úrvalsvísitölu Kauphallarinnar. Í morgunkorni Greiningarinnar í morgun segir meðal annars að OMXI16-vísitala Kauphallarinnar sé mjög óhentug og tæplega brúkleg við mat á þróun hlutabréfamarkaðarins.

Magnús segir Greininguna taka heldur sterkt til orða og að tilgangurinn á bak við vísitölu Íslandsbanka og Kauphallarinnar sé allt annar. „Við setjum strangari kröfur um inngöngu í úrvalsvísitöluna og endurskoðum hana sjaldnar. Það er einmitt til þess að sjóðir geti fylgt henni eftir," segir Magnús sem bendir á að þegar vísitala Íslandsbanka var sett af stað hafi verið tekið fram að hún væri ekki ætluð fyrir óbeina fjárfestingu. Nefnir Magnús sem dæmi að Landsbréf hafi komið inn með kauphallarsjóð sem fylgi eftir úrvalsvísitölu Kauphallarinnar.

Að sögn Magnúsar hefði verið mun eðlilegra að bera vísitölu Íslandsbanka saman við heildarvísitölu Kauphallarinnar í stað úrvalsvísitölunnar. "Vísitala Íslandsbanka lítur á 90% markaðarins og er endurskoðuð mánaðarlega en heildarvísitalan lítur á 100% af markaðnum og er endurskoðuð daglega. Það hefði verið eðlilegri samanburður og hún sýnir sambærilega þróun á síðasta ári eins og vísitala Íslandsbanka," segir Magnús en heildarvísitala Kauphallarinnar hækkaði um 29,1% á síðasta ári en K-90 vísitala Íslandsbanka um 33,9%.