„Reykjavík er frábær borg. Eftir að hafa fylgst með þjóðmálum sem blaðamaður, framhaldsskólakennari og pabbi undanfarin ár sé ég alltaf betur og betur hversu mikilvæg hún er í okkar daglega lífi. Borgin er lifandi og hún er alls staðar,“ segir Magnús Már Guðmundsson í framboðstilkynningu sem hann sendi frá sér í morgun. Tilkynningin er send vegna forvals Samfylkingarinnar í aðdraganda komandi borgarstjórnarkosninga.

„Hvað gæti verið betra? Nágrenni okkar. Við þurfum mannvænna umhverfi í henni fröken Reykjavík. Sterkari bönd á milli nágranna, atvinnurekenda, og allra íbúa. Borgarbúar keyra langar leiðir til að koma börnum í leikskóla. Borgarbúar eiga of fáa raunhæfa valkosti um húsnæði. Þeir bera of lítið úr býtum fyrir vinnu sína. Þessu þarf að breyta,“ segir Magnús.

Hann bendir á að margt sé þó gott. „Reykjavík er flott og skemmtileg borg. Ferðamenn flykkjast hingað. Ungt fólk af landsbygðinni sér tækifæri í borginni. En hún gæti verið ennþá betri,“ segir hann.

„Brúa verður bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Hækka þarf laun kvennastétta og borgin á að sýna gott fordæmi og greiða leik- og grunnskólakennurum réttlát laun. Það vantar sárlega virkan leigumarkað sem þjónar þörfum ólíkra hópa, allt frá námsmönnum og ungum barnafjölskyldum og til eldri borgara,“ bætir Magnús við.

Hann telur að Samfylkingunni sé einfaldlega best treystandi til að koma þessum samfélagsbreytingum í gegn. Hann talar fyrir þessum breytingum sem og góðri stefnu Samfylkingarinnar í velferðar-, skóla- og jafnréttismálum.

Magnús býr ásamt konu sinni og tveimur börnum í Bústaðahverfi, er alinn upp í Neðra-Breiðholti, er sögukennari í Menntaskólaskólanum í Kópavogi og hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Samfylkinguna í mörg ár. Hann biður um stuðning í 4.-5. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík.