Magnús Bjarnason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar Landsvirkjunar.  Um er að ræða nýtt svið hjá Landsvirkjun en hlutverk sviðsins verður að leggja aukna áherslu á markaðsmál hjá fyrirtækinu og hámarka framtíðartekjur þess.  Framkvæmdastjóri sviðsins mun heyra beint undir forstjóra félagsins og verður núverandi markaðsstarf innan fyrirtækisins fært yfir á nýja sviðið segir í tilkynningu.

Magnús Bjarnason hefur undanfarin misseri gegnt starfi framkvæmdastjóra Capacent Glacier, sem hefur sérhæft sig í ráðgjöf á sviði endurnýtanlegrar orku.  Hann var framkvæmdastjóri Alþjóðasviðs Glitnis og leiddi þjónustu bankans við alþjóðleg orku- og sjávarútvegsfyrirtæki.  Magnús starfaði í utanríkisþjónustunni um árabil; hann var viðskiptafulltrúi Íslands í Bandaríkjunum og Kanada, og síðar sendifulltrúi og staðgengill sendiherra í Sendiráði Íslands í Kína.  Hann lauk BS prófi í viðskiptafræði og MBA frá Thunderbird School of Global Management.

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar segir um ráðninguna í tilkynningu: „Það er mikill styrkur fyrir Landsvirkjun að fá Magnús Bjarnason til að leiða markaðs- og viðskiptaþróun fyrirtækisins.  Hann hefur mikla reynslu af alþjóðaviðskiptum og þekkingu á alþjóðlegum orkumörkuðum og sú reynsla mun án efa nýtast Landsvirkjun vel í þeim verkefnum sem framundan eru.“