Magnús Bjarni Baldursson hefur verið ráðinn markaðsstjóri Spkef sparisjóð. Í fréttatilkynningu frá sparisjóðnum kemur fram að Magnús var valinn úr hópi 36 umsækjenda.

Magnús var framkvæmdastjóri Auglýsingamiðlunar-Mindshare frá 2002-2010 og byggði það félag upp frá stofnun þess. Áður starfaði hann sem rannsóknastjóri hjá PricewaterhouseCoopers og sá einnig um markaðsdeild PWC. Magnús hefur einnig starfað hjá Landmælingum Íslands, Borgarlækni, Landlækni, Slysavarnarráði og Iðnaðarráðuneyti að því er fram kemur í tilkynningu.

Á árunum 1988-2002 sinnti Magnús kennslu við Raunvísindadeild Háskóla Íslands, m.a í aðferðafræði og lýðfræði.  Frá árinu 2006 hefur Magnús einbeitt sér að kennslu í markaðsfræði og vörumerkjastjórnun.

Að loknu stúdentsprófi frá M.R. lauk Magnús B.S. gráðu frá Háskóla Íslands 1986 og meistaragráðu frá York University í Toronto, Kanada 1988 í hagrænni aðferðafræði.

Magnús Bjarni Baldursson er kvæntur Sigríði Haraldsdóttur, sviðsstjóra hjá Landlæknisembættinu og eiga þau tvö börn.