Magnús Halldórsson, blaðamaður vefblaðsins Kjarnans, bregst hart við fréttum þess efnis að vefmiðillinn Eyjan er komin í samstarf við 365 miðla. Á Eyjunni í dag var greint frá því að dótturfélag Vefpressunar útgáfufélags Eyjunnar og 365 miðlar muni standa saman að útgáfu mánaðarlegs blaðs og sjónvarpsþáttar.

„Tvídæmdi hvítflibbaglæpamaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson færir út kvíarnar í fjölmiðlarekstrinum sínum, rétt áður en hann situr aðalmeðferðina í máli ákærenda ríkisins gegn honum þar sem hann er sakaður um að stela um 700 milljónum út úr Glitni, með umboðssvikum í samstarfi við aðra. Þetta er líklega rökrétt framhald af þeim athyglisverðu tímum sem við lifum núna,‟ segir Magnús Halldórsson á fésbókarsíðu sinni.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Magnús gagnrýnir Jón Ásgeir því að á föstudaginn var liðið eitt ár frá því að Magnús skrifaði mjög harðorðan pistil um hann sem bar titilinn Litli karlinn. Pistillinn var birtur á fréttavefnum Vísi . Magnús var þá starfsmaður 365 miðla en lét af störfum skömmu eftir að pistillinn birtist.

Jón Ásgeir Jóhannesson hefur tvisvar verið dæmdur í Hæstarétti. Í fyrra skiptið í svokölluðu Baugs-máli og svo aftur í skattahluta Baugs-málsins. Hann hefur verið ákærður ásamt fleirum í tengslum við Aurum-málið.