„Það er óhjákvæmilegt og hreinlegast að auglýsa stöðurnar, losa samninga við núverandi framkvæmdastjórn og ráða nýjan samheldinn hóp sem vonandi verður fjölbreyttur,“ segir Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri. Hann horfir til þess að jafnrétti verði á milli kynja í nýrri framkvæmdastjórn RÚV, sem verður auglýst og stefnt er á að skipa í um miðjan apríl. Framkvæmdastjórum RÚV verður fækkað í kjölfarið frá því sem nú er.

Eins og fram kom á VB.is fyrr í dag sitja tíu einstaklingar í framkvæmdastjórn RÚV. Þar af eru níu karlar og ein kona. Magnús Geir situr í framkvæmdastjórninni.  Hann segir þetta ekki gagnrýni á störf núverandi framkvæmdastjórnar.

Setur meira í innlenda framleiðslu

Magnús tilkynnti um umfangsmikla uppstokkun á rekstri og skipulagi RÚV í morgun í skugga tapreksturs umfram áætlanir. Þar á meðal er fyrirhugað að sameina sum svið RÚV en leggja önnur niður. Magnús segir of snemmt að segja til um hvað sparast með skipulagsbreytingunum. Hann bendir á að þetta sé í samræmi við það sem hann var ráðinn til:

„Ég er ráðinn hingað inn til að koma með nýja nálgun og nýja sýn og með mínar hugmyndir um það hvernig hægt er að gera RÚV enn betra, setja innlenda framleiðslu á oddinn, opna samtal við ríkisútvarpið, auk nýmiðlun, jafnrétti og leggja áherslu á landsbyggðina. Á sama tíma tíma þarf að stokka reksturinn upp, einfalda og straumlínulaga reksturinn. Til að hægt verður að ná þessum markmiðum þarf að gera skipulagsbreytingar. Það þarf að einfalda strúkturinn, breyta hlutverkum sviða og verkefni á milli sviða. Þar af leiðandi breytast verkefni framkvæmdastjóra mjög. Ég vil að áhersla verði á innihaldið og minni á umbúðirnar. Í nýrri framkvæmdastjórn fær dagskrárhlutinn mun meira vægi. Til þess verður sitt hvor dagskrárstjórinn yfir Rás 1 og Rás 2 til að skerpa á hlutverki stöðvanna,“ segir hann í samtali við VB.is.