Magnús Geir Þórðarsson verður næsti leikhússtjóri Borgarleikhússins. Stjórn Leikfélags Reykjavíkur ákvað þetta á fundi í Borgarleikhúsinu í dag. Sjö sóttu um starfið, en ráðið er í stöðuna til fjögurra ára. Magnús Geir tekur við af Guðjóni Pedersen, sem lætur af störfum í lok leikársins, eftir 8 ára starf, að því er fram kemur í frétt RÚV.

Magnús Geir hefur verið leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar frá árinu 2004,en þar áður var hann leikhússtjóri Leikfélags Íslands um 5 ára skeið. Hann nam leikstjórn, segir í fréttinni,  við The Bristol Old Vic Theatre School, er með meistaragráðu í leikhúsfræðum frá The University of Wales, og MBA frá Háskólanum í Reykjavík.