Stjórn Ríkisútvarpsins hefur ákveðið að ráða Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóra Borgarleikhússins sem útvarpsstjóra. Ákvörðunin um að bjóða honum stöðuna var tekin samhljóða á fundi stjórnar sunnudaginn 26. janúar, að því er kemur fram í tilkynningu.

Staða útvarpsstjóra var auglýst í desember í kjölfar þess að Páll Magnússon lét af störfum. Alls bárust 39 umsóknir um stöðuna.

Magnús lauk MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík árið 2005 og árið 2003 lauk hann meistaranámi í leikhúsfræði frá University of Wales. Hann var leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar frá árinu 2004 þar til hann tók við stöðu leikhússtjóra Borgarleikhússins árið 2008.