Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri í Borgarleikhúsinu er meðal þeirra sem sækja um starf útvarpsstjóra. Mbl.is greindi frá þessu og vísar í bréf sem Magnús Geir sendi starfsfólki leikhússins.

„Eins og alkunna er, er Ríkisútvarpið ein helsta menningar- og lýðræðisstofnun þjóðarinnar.  Ástæða þess að ég ákveð að sækjast eftir starfinu er að mig langar til að takast á við þetta krefjandi og spennandi verkefni sem felur í sér nýja áskorun. Ég hef kynnst starfsemi RÚV í gegnum setu mína í stjórn undanfarin þrjú ár og hef á undanförnum vikum fengið hvatningu til að gefa kost á mér í starfið. Eftir mikla yfirlegu varð niðurstaðan sú, að ég vildi taka þátt í að leiða RÚV inn í nýja spennandi tíma þar sem framleiðsla fjölbreytts íslensks dagskrárefnis er í öndvegi.

Þrátt fyrir það hve spennandi verkefnið er, þá var langt í frá auðvelt að taka þá ákvörðun að sækjast eftir starfinu. Í sannleika sagt er þetta sennilega erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið um ævina. Ástæðan er auðvitað sú að ef ég hlyti starfið þyrfti ég að hverfa frá leikhúsinu okkar sem ég nýt svo mjög að starfa í og ekki síst myndi ég sakna okkar frábæra samheldna hóps. Ef til þess kemur, þá vona ég að þið skiljið ákvörðun mína og styðjið.  Það er auðvitað svo í lífinu og listinni að öllu verður að halda á hreyfingu. Við megum ekki óttast breytingar og áskoranir – þar liggja tækifærin,“ segir meðal annars í bréfi Magnúsar.

Áður hafði Magnús Geir sagt í samtali við Sigríði Arnardóttir á RÚV að hann hygðist ekki sækja um.