„Eftir smáskammtalækningar á síðustu árum, þar sem skorið hefur verið niður og tálgað niður af starfseminni þá stendur eftir stofnun í of stórum fötum,“ segir Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri. Hann greindi frá umfangsmikilli uppstokkun á rekstri RÚV í skugga meiri tapreksturs en áætlað var. Þar á meðal verður framkvæmdastjórn RÚV sagt upp, svið færð til og önnur sameinuð. Magnús segir í samtali við VB.is of snemmt að segja til um hver sparnaðurinn verður. Á meðal þess sem verður skoðað er hvað verði gert við Útvarpshúsið í Efstaleiti.

Skoða á hvort selja eigi húsið eða gera á því breytingar.

„Í fyrsta lagi var húsið byggt utan um annars konar starfsemi en nú er. Starfsemi RÚV hefur dregist svo saman á síðustu árum. Í öðru lagi hefur orðið mikil þróun í tækni. Það er ekki í takti við nútímann,“ segir Magnús og bendir jafnframt á að skipulag fyrirtækisins, þar sem hann trónir á toppnum, sé ekki honum að skapi. „Skipulag fyrirtækisins er of stórt miðað við starfsemina. Það þarf að skerpa á, einfalda ferla og ná fram aukinni hagkvæmni.“

Hjá RÚV vinna um 260 manns auk verktaka og lausráðið fólk.