Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun dæmdur til að greiða þrotabúi bankans rúmar 717,3 milljónir króna með vöxtum. Kyrrsetning á fimmtungshlut hans í jörðinni Hvítsstaðir var jafnframt staðfest.

Krafan er tilkomin vegna láns sem bankinn veitti Magnúsi til kaupa á hlutabréfum bankans. Stjórn Kaupþings hafði fellt persónulega ábyrgð Magnúsar á lántökunni úr gildi. Héraðsdómur felldi þá ákvörðun úr gildi.

Magnús var handtekinn ásamt Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings-samstæðunnar í maí í fyrra og úrskurðaður í gæsluvarðhald í tengslum við rannsókn embættis sérstaks saksóknara á meintri markaðsmisnotkun. Hann hafði þá tekið við stóli bankastjóra hjá Banque Havilland sem reistur var á grunni Kaupþings í Lúxemborg. Eftir handtökuna var honum sagt upp.