*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 7. desember 2007 15:19

Magnús Kristinsson styrkir lausafjárstöðu Gnúps

Ritstjórn

Einkahlutafélagið Smáey, sem er í eigu Magnúsar Kristinssonar, hefur keypt 4.603.687 hluta í Kaupþingi af Gnúpi-Fjárfestingarfélagi, sem Magnús á tæplega 44% í, en aðrir eigendur eru Kristinn Björnsson og Þórður Már Jóhannesson. Hefur Gnúpur þar með minnkað eignarhlut sinn í Kaupþing úr 5,37% í 4,74%, eða um 0,63%. Andvirði viðskiptanna miðað við markaðsgengi í Kauphöll Íslands er tæplega fjórir milljarðar króna.

  Forsvarsmenn Gnúps vildu ekki tjá sig um viðskiptin þegar til þeirra var leitað en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er með þeim verið að styrkja lausafjárstöðu Gnúps og létta þannig rekstur þess félags. Gnúpur á ríflega 17% hlutafjár í FL Group og hefur ekki farið varhluta af þeim lækkunum sem orðið hafa á gengi þess félags að undanförnu. Haft er eftir Þórði Má Jóhannessyni í Viðskiptablaðinu í dag að verðið á FL Group sé orðið "afskaplega lágt" en Gnúpsmenn hyggist ætla að þreyja þorrann. Þá kemur einnig fram að tap Gnúps á þróun hlutabréfa í Kaupþingi nemi allt að 9,5 milljörðum króna.