Magnús Lyngdal Magnússon hefur verið ráðinn skrifstofustjóri Miðstöðvar framhaldsnáms við Háskóla Íslands.

Fram kemur í tilkynningu frá Magnús lauk BA-prófi í sagnfræði og íslensku frá Háskóla Íslands árið 2000 og MA-prófi í sagnfræði árið 2002. Hann starfaði við rannsóknir frá 2002 til 2007 en var þá ráðinn sérfræðingur hjá Rannís. Þar gegndi Magnús meðal annars starfi aðstoðarforstöðumanns á árunum 2008-2012. Magnús starfaði sem sérfræðingur á skrifstofu vísinda og háskóla í mennta- og menningarmálaráðuneytinu frá árinu 2012 og þar til hann var ráðinn til Háskóla Íslands nýverið.

Miðstöð framhaldsnáms tók til starfa 1. febrúar 2009. Hlutverk hennar er að tryggja og efla gæði meistara- og doktorsnáms við Háskóla Íslands og stuðla að viðgangi þess í samræmi við ákvarðanir háskólaráðs. Fræðasviðum og deildum ber að senda miðstöðinni upplýsingar og gögn sem hún kallar eftir. Fagleg ábyrgð á framhaldsnámi við skólann er á höndum deilda en Miðstöð framhaldsnáms hefur heildaryfirsýn yfir framhaldsnámið og starfar náið með háskóladeildum, gæðanefnd háskólaráðs og sameiginlegri stjórnsýslu. Forstöðumaður Miðstöðvarinnar er Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu, en hjá henni starfar einnig Pétur Ástvaldsson verkefnastjóri. Miðstöðin aflar, greinir og miðlar gögnum um alla helstu þætti framhaldsnáms við Háskóla Íslands. Hún er einnig vettvangur samráðs og samvinnu um námið og tengiliður við samstarfsaðila innan lands og utan. Vegur Miðstöðvarinnar hefur vaxið samhliða aukinni áherslu Háskóla Íslands á doktorsnám en til marks um eflingu námsins voru 53 doktorar, sem varið hafa ritgerðir sínar við Háskóla Íslands á síðustu 12 mánuðum, sæmdir gullmerki skólans á hátíð brautskráðra doktora í gær, fullveldisdaginn 1. desember.