Magnús Scheving, stofnandi Latabæjar, hefur misst ráðandi hlut í fyrirtækinu eftir að allir kröfuhafar samþykktu nauðasamninga. Aðalfundur félagsins var haldinn í gær. Nauðasamningarnir tryggja áframhaldandi rekstur félagsins. Fyrir breytingar var eignarhlutur Magnúsar 50% en á nú eftir breytingar um 40%. Allt hlutafé hefur verið fært niður og var skuldum kröfuhafa breytt í nýtt hlutafé. Stærsti kröfuhafi Latabæjar er Landsbankinn.

Missir höfundarréttinn

Eignarhlutur Magnúsar eftir nauðasamninga er tilkominn vegna vangoldinna höfundarréttargjalda af hálfu Latabæjar. Gjöldunum verður breytt í hlutafé sem verður um 40% af heildarhlutafé og að auki gefur Magnús frá sér höfundarréttinn að Latabæ. Viðskiptablaðið greindi frá því í febrúar síðastliðnum að það stæði til að færa allt hlutafé Laatabæjar niður og breyta kröfum skuldabréfaeigenda í hlutafé. Þá höfðu ekki allir kröfuhafar samþykkt leiðina.

Guðmundur Magnason, framkvæmdarstjóri Latabæjar, vildi ekki tjá sig við Viðskiptablaðið í gær áður en aðalfundurinn fór fram. Viðskiptablaðið hafði samband við tvo kröfuhafa sem hafa komið að nauðasamningum. Annar þeirra tjáði blaðinu að þetta væri besta niðurstaðan í ljósi stöðunnar þótt hann væri alls ekki sáttur við rekstur félagsins undanfarið. Flestir kröfuhafarnir hefðu talið hagsmunum sínum best borgið með því að samþykkja nauðasamningana. Einn kröfuhafi hefði dregið lapppirnar fram á síðustu stundu en samþykkt samninginn á endanum.

-Nánar í Viðskiptablaðinu í dag

Ranglega er farið með nafn Guðmundar Magnasonar, framkvæmdarstjóra Latabæjar, í blaðinu í dag. Þar er hann sagður Magnússon og er það áréttað hér með.