Magnús Gunnarsson, formaður bankaráðs Kaupþings og Valur Valsson, formaður bankaráðs Glitnis ætla ekki að verða við beiðni fjármálaráðherra um að sitja áfram sem formenn bankaráðanna en sem kunnugt er sögðu þeir báðir af sér úr stjórnum bankanna í gær.

Í sameiginlegu bréfi til fjármálaráðherra í dag segja þeir að það sé fyrir bestu að fyrirsjáanlegar breytingar á bankastjórnum verði nú þegar en bíði ekki fram til aðalfunda í apríl.

„Mikilvægt er að allri óvissu um stjórn bankanna sé eytt sem fyrst og þess vegna teljum við rétt að víkja til hliðar og skapa með því svigrúm til mannabreytinga,“ segja þeir í bréfinu og ítreka að þeir standi við afsagnarbréf sitt frá því í gær.