Magnús Orri Schram bauð sig fram til formanns Samfylkingarinnar í formannskjöri flokksins sem stóð yfir dagana 28. maí til 3. júní síðastliðinn.

Í lokahrinu kosninganna þar sem valið stóð á milli hans og Oddnýjar Harðardóttur fékk hann 40,1% atkvæða en núverandi formaður fékk 59,9%.

Segist hafa ákveðið að bjóða sig ekki fram fyrir næstu kosningar

Nú hefur hann tilkynnt á facebook síðu sinni að hann hyggist ekki fara í framboð í kosningunum til Alþingis í haust. Á síðunni segir hann:

„Síðasta vor bauð ég mig fram til formanns Samfylkingarinnar, þar sem ég lagði áherslu á viðamiklar breytingar í starfi flokksins, á vinnubrögðum og í forystusveit. Ég taldi það nauðsynlegt til að endurnýja traust til hreyfingar jafnaðarmanna sem hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár. Í kosningunni laut ég í lægra haldi fyrir Oddnýju G. Harðardóttur. Vil ég ítreka hamingjuóskir mínar til hennar, um leið og ég þakka fyrir þann mikla stuðning sem ég hlaut.

Nú líður senn að flokksvali Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi vegna Alþingiskosninga næsta haust. Ég tel því rétt að tilkynna það með formlegum hætti að ég hef ákveðið að bjóða mig ekki fram fyrir næstu kosningar. Ég tel að Oddný eigi að hafa fullt umboð til að vinna samkvæmt þeim áherslum sem hún lagði í sinni kosningabaráttu og vil óska henni alls hins besta.

Vil ég senda jafnaðarmönnum um allt land mínar bestu kveðjur og óska þeim góðs gengis í komandi kosningum.

Kveðja,
Magnús Orri Schram“

Vildi leggja Samfylkinguna niður

Magnús Orri sagði fyrir formannskjörið að hann vildi stofna nýja hreyfingu sem stefndi saman fólki frá miðju til vinstri og leggja Samfylkinguna niður í núverandi mynd.