Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi menntamálaráðherra, er síður en svo sammála Magnúsi Orra Schram, þingmanns Samfylkingarinnar, um niðurstöðu landsfundar Sjálfstæðisflokksins um síðustu helgi. Hún vill ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og láta þjóðina kjósa um það hvort hún vilji ganga í sambandið eður ei. Samþykkt var á landsfundinum að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið og taka þær ekki upp að nýju nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Magnús Orri sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag m.a. niðurstöðuna hljóta að vera vonbrigði fyrir evrópusinnaða sjálfstæðismenn enda hafi harðlínuöflin í flokknum náð völdum. Hann taldi að eftir landsfund hafi Sjálfstæðisflokkurinn útilokað sig sem kost fyrir frjálslynda kjósendur ásamt því að loka fyrir samstarf við Samfylkinguna.

Frelsið er dásamlegt

„Auðvitað á að klára viðræðurnar og láta þjóðina kjósa,“ sagði Þorgerður. „Ég er í Sjálfstæðisflokknum og það dásamlega við frelsið er umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra. Ég sætti mig við að þetta var niðurstaða landsfundarins, en þetta er bara svona. Ég bið menn einfaldlega um að skoða heildarmyndina. En ef það er frjálslyndi að herða höftin sem aldrei fyrr, ef það er frjálslyndi að það þurfi að skilja við heilbrigðiskerfið þannig að það þarf á rústabjörgun að halda [...] hækka skatta yfir hundrað sinnum [...] og kollvarpa stjórnarskrá Íslands þá má háttvirtur þingmaður Magnús Orri eiga þetta frjálslyndi fyrir mér.“