Magnús Þorsteinsson hefur ákveðið að draga sig úr varastjórn Icelandic Group[ IG ]. En hann gegndi áður stjórnarformennsku í félaginu. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Á síðasta aðalfundi félagsins benti Magnús á, að þrátt fyrir að hann stígi úr stjórnarformannsstólnum er hann ekki búinn að missa öll tengsl við félagið, því hann biði fram krafta sína til setu í varastjórn Icelandic Group.

Stjórn Icelandic Group telur ekki ástæðu til að fram fari kosning varamanns í hans stað og hefur því ákveðið að fresta kjöri til næsta aðalfundar.

Skömmu fyrir síðustu áramót sagði Magnús sig úr stjórn Eimskipafélagsins [ HFEIM ] en þar var hann stjórnarformaður.

Friðrik Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri Straums fjárfestingabanka, er stjórnarformaður Icelandic Group.