Magnús Bjarnason hefur verið ráðinn forstjóri  Icelandic Group. Hann tekur við af Lárusi Ásgeirssyni, sem var ráðinn í október í fyrra.

Fram kemur í tilkynningu frá Icelandic Group að Magnús kemur til félagsins frá Landsvirkjun en þar var hann framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs. Hann var áður framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Glitnis og leiddi þjónustu bankans við alþjóðleg orku- og sjávarútvegsfyrirtæki.

Magnús hefur víðtæka reynslu af árangursríku starfi á alþjóðamörkuðum og þekkingu á sjávarútvegi.  Hann var meðal annars viðskiptafulltrúi Íslands í Bandaríkjunum og Kanada og staðgengill sendiherra í sendiráði Íslands í Kína. Magnús hefur setið í stjórn Icelandic Group.