Magnús Þór Gylfason hefur verið ráðinn yfirmaður samskiptasviðs Landsvirkjunar. Magnús Þór er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og býr yfir fjölbreyttri og langri reynslu á sviði samskipta. Hann tekur við af Rögnu Söru Jónsdóttur, sem hefur verið ráðin forstöðumaður samfélagsábyrgðar hjá Landsvirkjun.

Fram kemur í tilkynningu frá Landsvirkjun að Magnús Þór hefur starfað hjá Landsvirkjun á samskiptasviði sem staðgengill yfirmanns frá byrjun þessa árs. Hann var aðstoðarmaður borgarstjórans í Reykjavík á árunum 2008-2010. Á árunum 2006-2008 var hann skrifstofustjóri borgarstjóra og borgarritari með ábyrgð á rekstri og upplýsingamálum. Á árinu 2008 var hann framkvæmdastjóri samskiptasviðs Rio Tinto Alcan á Íslandi. Þá starfaði Magnús Þór um skeið sem framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna og á Ríkisútvarpinu Sjónvarpi sem fréttamaður. Magnús Þór hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa og hefur t.d. setið í menningar- og ferðamálaráði og mannréttindaráði Reykjavíkurborgar og stjórn Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð.

Samskiptasvið Landsvirkjunar ber ábyrgð á innri og ytri samskiptum hjá Landsvirkjun, sér um samskipti við fjölmiðla og hefur frumkvæði að markvissri upplýsingagjöf. Samskiptasvið hefur einnig umsjón með útgáfu og auglýsingum á vegum Landsvirkjunar og vörumerki þess, rekur vefinn Landsvirkjun.is , skipuleggur ársfundi, haustfundi, starfsmannafundi og aðra stærri viðburði og hefur umsjón með gestamóttökum í samstarfi við starfsstöðvar Landsvirkjunar.