Frumkvæðið að kaupum félagsins Imon á rúmlega 4% hlut í gamla Landsbankanum kom frá Magnúsi Ármann, eiganda félagsins. Aðalmeðferð í máli embættis sérstaks saksóknara gegn þremur fyrrverandi stjórnendum hjá Landsbankanum hófst héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni. Það snýst um veitingu tveggja lána upp á um níu milljarða króna til tveggja félaga. Félag Magnúsar fékk um fimm milljarða króna til að kaupa hlutabréf í Landsbankanum örfáum dögum áður en skilanefnd tók yfir lyklavöldin í bankanum. Sérstakur saksóknari telur að um sýndarviðskipti hafi verið að ræða til að láta sem eftirspurn hafi verið eftir bréfum í bankanum.

Morgunblaðið fjallar um aðalmeðferðina í dag.

Þar er haft eftir Magnúsi, sem var til vitnis í málinu í gær, að hann hafi í einhverjar vikur eða mánuði áður en að viðskiptunum komu verið í samskiptum við yfirmenn í bankanum og gefið kynna áhuga á að kaupa hlutabréf bankans þar sem gengi þeirra hafði lækkað mikið. Í september árið 2008 hafi hann svo fengið símtal og verið boðaður á fund þar sem viðskiptin voru ákveðina. Forsenda kaupanna að hans hálfu var 100% lánafyrirgreiðsla frá bankanum. Á móti gerði bankinn kröfu um að bréfin yrðu sett að veði auk stofnfjárbréfa sem Imon átti í Byr.