*

sunnudagur, 18. apríl 2021
Innlent 25. febrúar 2021 11:29

Magnús sendir Heiðari létta pillu

„Ef leiðrétt er fyrir áhrifum heimsfaraldurs á síðasta ári er ég akkúrat í kjörþyngd,“ segir í tísti framkvæmdastjóra sölu hjá Símanum.

Jóhann Óli Eiðsson
Magnús Ragnarsson.
Haraldur Guðjónsson

Ekki verður betur séð en að Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri sölu hjá Símanum, beini spjótum sínum háðslega að Heiðari Guðjónssyni, forstjóra Sýnar, í tísti sem hann sendi frá sér í morgunsárið. Þar skýtur Magnús létt á Heiðar fyrir ummæli sem fylgdu tilkynningu um afkomu Sýnar á síðasta ári. 

Sýn skilaði ársuppgjöri í gær en þar kom meðal annars fram að félagið hefði tapað 405 milljónum króna en það er nokkuð betri afkoma en árið 2019 þegar tapið nam 1.748 milljónum króna. „Heimsfaraldurinn hafði töluverð áhrif á reksturinn á árinu. Ef við leiðréttum fyrir því er ljós að árangur af nýrri stefnu hefði skilað okkur hagnaði á árinu 2020,“ var haft eftir Heiðari í tilkynningu af þessu tilefni. 

„Ef leiðrétt er fyrir áhrifum heimsfaraldurs á síðasta ári er ég akkúrat í kjörþyngd,“ segir í tísti Magnúsar sem birtist í dag. Verður ekki annað séð en að þeirri háðsglósu sé beint að Heiðari. 

Það hefur löngum verið nokkuð stirt milli þessara tveggja fjarskiptarisa en óhætt er að fullyrða að þessi geiri sé nokkuð kærugjarn. Þá náði Síminn fyrir um tveimur árum að kaupa sýningarréttinn á enska boltanum sem löngum hafði verið eitt flaggskipa Stöðvar 2. Afkoma Símans á síðasta ári var jákvæð um rúmlega 2,9 milljarða króna á síðasta ári en þó dróst hagnaðurinn saman um 150 milljónir króna rúmar. Sagt var frá því á vef Viðskiptablaðsins í gær að Magnús hefði tvöfaldað hlut sinn í Símanum.

Stikkorð: Síminn Sýn