Í Rannsóknarskýrslu Alþingis sem kom út fyrir tveimur árum kemur fram að félög tengd Magnúsi Jónatanssyni skulduðu bönkunum 5,9 milljarða króna. Félögin sem þar voru talin upp eru Lindberg, sem var að hluta í eigu Sparisjóðabankans og stofnað utan um kaup á fasteignum í Örfirisey í lok árs 2006 og fleiri félög sem áttu lóðir í Mosfellsbæ og í Hveragerði.

Greint var frá því fyrr í dag að skiptum er nú lokið á félaginu Andhrímnir sem Magnús stofnaði utan um landa og fasteignakaup á Tangabryggju í Reykjavík. Engar eignir fengust úr búinu upp í tæplega 600 milljóna króna kröfur. Félagið fékk lán til viðskiptanna í september árið 2008, nokkrum dögum áður en bankarnir fóru á hliðina.

Sparisjóðabankinn tók áhættu

Samkvæmt ársreikningi 2010 námu skuldir Lindbergs í erlendum gjaldmiðlum tæpum 3,3 milljörðum króna. Gjaldfallnar afborganir áf langtímalánum voru á sama tíma jafn há.

Athygli er vakin á því í Rannsóknarskýrslunni að Sparisjóðabankinn hafi veitt lánin til kaupa á fasteignum í Örfirisey án þess að nýtt skipulag hafi legið fyrir um svæðið og því ekki hægt að gera áætlanir um það hvenær uppbygging gæti hafist. Tekið er fram að því síður sé hvenær og hvort fjárfestingin muni skila bankanum tekjum. Með lánveitingunni hafi bankinn tekið mikla áhættu. Sparisjóðabankinn fór á hliðina vorið 2009, m.a. vegna svokallaðra ástarbréfaviðskipta bankans sem fólst í því að vera milligönguaðili um lausafé fyrir stóru viðskiptabankana úr sjóðum Seðlabankans.

DV hefur jafnframt skrifað ítarlega um umsvif Magnúsar. Í umfjöllun blaðsins segir að hann hafi verið áttundi stærsti skuldari Byrs í nóvember 2008 og skuldir hans og félaga honum tengdum numi 1,9 milljörðum króna.