Magnús Þorkelson hefur verið skipaður í embætti skólameistara Flensborgarskólans í Hafnarfirði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Fimm umsóknir bárust um embætti skólameistara Flensborgarskólans í Hafnarfirði. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur að fenginni umsögn skólanefndar skipað Magnús Þorkelsson í embætti skólameistara skólans til fimm ára frá 1. ágúst 2014 að telja.

Aðspurður segir Magnús starfið leggjast mjög vel í sig. ,,Flensborgarskólinn er vel mannaður skóli bæði af nemendum og starfsfólki og það er svo margt sem býr í honum að ég hlakka til að takast á við þau verkefni sem eru framundan."

Magnús hafði unnið sem aðstoðarskólameistari frá árinu 1998 en þetta er í þriðja skipti sem hann er skipaður skólameistari skólans en hann hefur tvisvar áður verið afleysingaskólameistari í eitt ár árið 2009-2010 og síðasta vetur.