*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 2. mars 2006 14:48

Magnús tekur við af Sigrúnu hjá Tæknival

eignarhaldsfélagið Byr kaupir fyrirtækið

Ritstjórn

Eignarhaldsfélagið Byr ehf. hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé í Tæknivali. Að Byr ehf. standa sömu aðilar og eiga meirihluta í upplýsingatæknifélaginu Þekkingu hf., ásamt fleiri fjárfestum. Seljandi er Fons eignarhaldsfélag, sem er í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar. Kaupverðið er trúnaðarmál segir í tilkynningu sem send er út vegna kaupanna.

Nýir eigendur hafa þegar tekið við félaginu og var ný stjórn Byrs kosin á hluthafafundi fyrr í dag. Nýr stjórnarformaður er Stefán Jóhannesson. Sigrún Guðjónsdóttir forstjóri lætur af störfum, og nýr forstjóri Tæknivals verður Magnús V. Snædal, 42ja ára rekstrarfræðingur sem gegnt hefur starfi gæða- og starfsmannastjóra hjá Þekkingu. Fráfarandi forstjóri verður nýjum eigendum innan handar á næstum vikum. Sigrún hefur jafnframt verið framkvæmdastjóri Innn hf og mun nú snúa sér að fullu að rekstri Innn hf.

Velta Tæknivals á síðasta ári var um 1100 milljónir. Umtalsvert tap varð á rekstri félagsins og hefur taprekstur verið viðvarandi undanfarin ár. Gripið hefur verið til aðgerða til hagræðingar í rekstri félagsins og munu þær skila sér í bættri afkomu á þessu ári.

"Við ætlum okkar er að snúa rekstri félagsins við og lítum á Tæknival sem góða fjárfestingu. Við teljum fyrirtækið eiga mikið inni og við munum kynna okkar áherslubreytingar í rekstri félagsins á næstu vikum," segir Stefán Jóhannesson, stjórnarformaður Eignarhaldsfélagsins, Byrs í tilkynningunni.

Meðal þeirra vörumerkja sem Tæknival hefur umboð fyrir á Íslandi eru: Fujitzu Siemens, EMC gagnastæður, Xerox og Toshiba.