Magnús Þór Ásmundsson, framkvæmdastjóri framleiðsluþróunar og skautsmiðju hjá Fjarðaáli, tekið við starfi forstjóra Alcoa á Íslandi í stað Tómasar Más Sigurðssonar, sem nýlega var ráðinn forstjóri Alcoa í Evrópu.

Þá hefur Janne Sigurðsson, framkvæmdastjóri framleiðslu Alcoa Fjarðaáls, verið ráðin forstjóri Fjarðaáls.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alcoa. Jafnframt starfi sem forstjóri Alcoa á Íslandi mun Magnús Þór gegna áfram starfi framkvæmdastjóra framleiðsluþróunar hjá Fjarðaáli. Magnús Þór er rafmagnsverkfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og M.Sc. frá Danmarks Tekniske Universitet. Magnús Þór hefur starfað hjá Fjarðaáli frá 2009.

„Í hinu nýja starfi mun Magnús Þór meðal annars leiða samfélagstengsl og samskipti við hið opinbera, sameiginleg ferli með Alcoa í Evrópu og fjárfestingarverkefni og þróun fyrirtækisins á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.

Magnús Þór Ásmundsson.
Magnús Þór Ásmundsson.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Magnús Þór er kvæntur Soffíu G. Brandsdóttur snyrtifræðingi og eiga þau þrjú börn.

Janne er dönsk að uppruna, fædd í Álaborg í Danmörku árið 1966. Hún útskrifaðist 1995 sem cand scient í stærðfræði og tölvunarfræði frá Háskólanum í Álaborg. Janne hóf störf hjá álverinu árið 2006, fyrst sem framkvæmdastjóri upplýsingatækni. Fáum mánuðum síðar varð hún framkvæmdastjóri framleiðsluþróunar og framkvæmdastjóri kerskála var hún frá 2008 til 2010. Hún varð framkvæmdastjóri framleiðslu í apríl 2010.

Janne er gift Magnúsi Sigurðssyni, múrara frá Eskifirði, og búa þau þar ásamt börnum sínum tveimur.

Janne Sigurðsson.
Janne Sigurðsson.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Janne Sigurðsson.