Tjarnargatan hefur ráðið Magnús Sigurbjörnsson en hann mun taka við nýrri deild stafrænna miðla og greininga hjá Tjarnargötunni. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Magnús stofnaði fyrirtækið Papaya sem sérhæfði sig í þróun á tæknilegum lausnum og ráðgjöf á samfélagsmiðlum frá 2017 en hann er einnig fyrrverandi framkvæmdastjóri borgarstjórnarhóps Sjálfstæðisflokksins. Þá hefur hann tekið þátt í mörgum kosningabaráttum fyrir Sjálfstæðisflokkinn undanfarin ár. Magnús starfaði jafnframt sem framkvæmdastjóri RunningBall á Íslandi á árunum 2009-2016 og stýrði þar teymi í gagnaöflun og greiningu á tölfræði frá íslenskum íþróttaviðburðum.

„Það eru spennandi tímar framundan hjá Tjarnargötunni og ég er mjög ánægður með að vera genginn til liðs við þennan flotta hóp. Umhverfi stafrænna miðla er að breytast á hverjum degi og er mikilvægt fyrir okkur að vera á tánum til að geta stutt fyrirtæki í því nýjasta sem er að gerast hverju sinni. Tjarnargatan hefur verið brautryðjandi í nýstárlegum auglýsingaherferðum og er dýrmætt að huga bæði að því hvernig betur má nýta gögn sem og að hámarka kraft hverjar krónu sem fer í birtingar," segir Magnús.