Eitt merkilegasta verk um íslenska matarmenningu frá því að Nanna Rögnvaldsdóttir gaf út Matarást kom út í síðustu viku. Útgáfan kom vissulegra úr óvæntri átt: Frá Samkeppniseftirlitinu. En um er að ræða 130 blaðsíðna skýrslu um majónesmarkaðinn á Íslandi þar sem sérfræðingar eftirlitsins velta við öllum steinum og ráðast í frumspekilegar greiningar á eðli majóness og samanburði á tengdum sósum og öðrum óskyldum.

Tilefni þessarar miklu skýrslu er ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að ógilda kaup Kaupfélags Skagfirðinga á Gunnars – hinum sögufræga majónesframleiðanda í Hafnarfirði. Ákvörðunin var tilkynnt í síðustu viku og vakti hún töluverða athygli. Ekki síst vegna þess að Samkeppniseftirlitið virðist líta svo á að íslenski majónesmarkaðurinn sé algjörlega einangrað fyrirbrigði þar sem framboð og eftirspurn eftir landnámsmajónesinu lítur eigin lögmálum.

Í frétt á vef Samkeppniseftirlitsins um ógildinguna segir að með kaupum Kaupfélags Skagfirðinga á Gunnars hefðu runnið saman tveir af stærstu framleiðundunum á majónesi og köldum sósum á Íslandi. Enn fremur að samruninn hefði haft „alvarlegar afleiðingar fyrir samkeppni, viðskiptavinum og neytendum til tjóns“. Af því sögðu má vera ljóst að Samkeppniseftirlitið hefur með þessu afstýrt stórslysi á íslenskum neytendamarkaði og aðför sem hefði getað grafið verulega undan lífskjörum í landinu.

Þrjár ástæður eru gefnar fyrir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Í fyrsta lagi hefði samruninn leitt til markaðsráðandi stöðu hins sameinaða félags. Nánar tiltekið á mörkuðum fyrir hreint majónes og aðrar tilbúnar kaldar sósur. Í öðru lagi segir eftirlitið að Kaupfélag Skagfirðinga og Gunnars séu nánir og mikilvægir keppinautar við framleiðslu og sölu á hreinu majónesi og köldum sósum. Fáir framleiðendur eru af hreinu majónesi á Íslandi og kaup KS á Gunnars hefði fækkað þeim um einn. Í þriðja lagi er samruninn sagður hafa „skaðleg útilokunaráhrif og lóðrétt samþætting hefði aukist“.

Það sem vekur sérstaklega athygli við nálgun Samkeppniseftirlitsins er að sérfræðingar stofnunarinnar virðast sannfærðir um að engar staðkvæmdarvörur sem máli skipta séu fyrir íslenskt majónes og sósur framleiddar úr því. Og að sama skapi að sá markaður skipti einhverju máli í hinu stóra samhengi hlutanna og það réttlæti inngrip stofnunarinnar til að verja heilbrigða samkeppni á þessum einstaka markaði.

Þrátt fyrir að engar upplýsingar séu um stærð þessa einstaka markaðar í skýrslu Samkeppniseftirlitsins segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins – sem eru bæði innvígðar og innmúraðar í majónessheimum – að hann hlaupi á nokkrum hundruð milljónum á ári hverju. Eins og gefur að skilja þá veltir auðvitað heildarsósumarkaðurinn mun hærri upphæðum.

Majó og tómatsósa óskyld fyrirbrigði

Nú velta vafalaust fyrir sér þeir sem hafa blandað sér heimagerða kokkteilsósu eða hamborgarasósu hvernig sé hægt að rökstyðja að sósur á borð við tómatsósu, grillsósur eða fleira gúmmelaði geti alls ekki talist sem staðkvæmdarvörur fyrir majónes. En það er einmitt þá sem sérfræðingar Samkeppniseftirlitsins fara á flug í skýrslunni.

Þannig er vakið athygli á í skýrslunni að framleiðsluaðferð tómat-sósu er allt önnur en framleiðsla majónes. Eins og segir í skýrslunni:

„Fyrir framleiðslu tómatsósu er notast við nokkur framleiðslutæki, framleiðsluaðferðir og önnur hráefni samanborið við hráefni, tæki og framleiðsluaðferðir til þess að framleiða majónes og svo sósur með majónesgrunni.“

Og enn fremur:

„Af framangreindum atriðum er öruggt að álykta að mati Samkeppniseftirlitsins að framboðsstaðganga sé ekki til staðar milli tómatsósu og majónesblandaðra sósa.“

Rökstuðningur Samkeppniseftirlitsins býður upp á skemmtilega hagfræðilega hugarleikfimi. Þannig má sjá af þessu að hamborgari sem keyptur er á skyndibitakeðjunni Wendy‘s er allt önnur vara en hamborgari sem keyptur er á McDonald‘s þar sem fyrrnefnda keðjan smyr hamborgarbrauðið með majónesi meðan að sú síðarnefnda notast við tómatsósu og sinnep
eftir atvikum.

Og að mati sérfræðinga stofnunarinnar vaða þeir sem nefna BBQ-sósur í þessu samhengi villur vegar. Í skýrslunni segir:

Þá hafa BBQ-sósur þann tilgang að bragðbæta og marinera mat áður eða meðan matur er eldaður. Með slíkri notkun BBQ sósa er ætlunin að ná fram tilteknu bragði og eftir atvikum áferð. Að því leytinu til mætti jafnvel færa rök fyrir því að BBQ sósa falli raunar ekki í flokk tilbúinna kaldra sósa sem fylgihlutur eða viðbót til að bragðbæta framreidda rétti sem er búið að elda.

Og niðurstaðan er afgerandi:

„Að mati Samkeppniseftirlitsins má því álykta af framangreindum staðreyndum um einkenni, eiginleika og eðli BBQ sósa að eins og með tómatsósur sé ekki staðganga milli þessara sósa annars vegar og til að mynda majónes blandaðra sósa hins vegar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 2. febrúar 2023. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.