Jónína Leósdóttir, eiginkona Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, og Bjarni Bjarnason, eiginmaður Katrínar Júlíusdóttur fjármálaráðherra, eru á meðal þeirra sem fá greidd listamannalaun á árinu samkvæmt ákvörðun stjórnar listamannalauna.

Stjórn listamannalauna úthlutaði í upphafi vikunnar listamannalaunum fyrir árið. Alls bárust 711 umsóknir frá einstaklingum og hópum um starfslaun eða ferðastyrki. Úthlutað var til 241 einstaklings og hópa. Til úthlutunar voru 1.600 mánaðarlaun en þau eru 301.857 krónur, samtals tæpar 483 milljónir króna.

Sem fyrr segir fá makar ráðherra úr ríkisstjórn greidd listamannalaun á árinu. Jónína Leósdóttir, rithöfundur og fv. ritstjóri, fær greidd laun í þrjá mánuði sem gerir rúmar 900 þúsund krónur. Þá fær Bjarni Bjarnason, rithöfundur, greidd laun í sex mánuði eða rúmar 1.800 þúsund krónur. Í þeim hópi eru einnig aðrir þekktir rithöfundar, t.d. Úlfar Þormóðsson, Vilborg Davíðsdóttir, Stefán Máni Sigþórsson, Sindri Freysson og Huldar Breiðfjörð.

Þá eru Andri Snær Magnason, Einar Kárason og Ólafur Haukur Símonarson meðal þeirra rithöfunda sem fá greidd laun í níu mánuði, eða rúmar 2,7 milljónir króna. Einar Már Guðmundsson, Gerður Kristný Guðjónsdóttir, Hallgrímur Helgason og Þórarinn Kr. Eldjárn eru á meðal rithöfunda sem fá greidd laun í tólf mánuði, eða rúmar 3,6 milljónir króna. Þá fá þau Gyrðir Elíasson og Steinunn Sigurðardóttir greidd laun í 24 mánuði, eða um 7,2 milljónir króna.

Gjaldþrota sýning fær ríkisstyrk

Þá vekur athygli að úr launasjóði sviðslistaflokks fá Brúðuheimar greidd laun í tíu mánuði úr flokki sviðslista. Eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um var félagið Fígúra ehf, rekstraraðili Brúðuheima, tekið til gjaldþrotaskipta í apríl á síðasta ári. Þá greindi Viðskiptablaðið frá því að eigendur Brúðuheima, hjónin Bernd Ogrodnik og Hildur M Jónsdóttir hefðu ákveðið að hætta starfseminni í febrúar á síðasta ári vegna forsendubrests að þeirra sögn. Þau töldu að reksturinn hafi ekki fengið opinbera styrki eins og reiknað hafi verið með.

Uppfært kl. 12.45: Rétt er að taka fram að Fígúra ehf. hélt eingöngu utan um rekstur húsnæðis í Borgarnesi sem hýsti leiksýningar Brúðuheima. Félagið Brúðuheimar ehf. heldur hins vegar utan um leiksýningar Brúðuheima og það er það félag sem fær nú styrk frá ríkinu.

Sjá tilkynningu frá stjórn listamannalauna.