Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að miðað verði við að makrílafli íslenskra skipa verði um 147 þúsund tonn í ár. Morgunblaðið segist hafa heimildir fyrir þessu og að makrílvertíð hefjist um miðjan júní. Tilkynnt verður um ákvörðun um leyfilegan makrílafla Íslendinga í vikunni.

147 þúsund tonn eru um 16,5% af ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknarráðsins en sú ráðgjöf hljóðaði upp á 890 þúsund tonn. Það er nálægt þeim 11,9% heildaraflans sem samkomulag náðist um í viðræðum við Evrópusambandið fyrr í vetur.

Eftir að það samkomulag náðist samdi Evrópusambandið aftur á móti við Noreg og Færeyjar án aðkomu Íslands.