Um níutíu prósent af þeim makríl sem er veiddur við Íslandsstrendur nú í sumar virðast fara til manneldis að því er kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Þar segir að íslensk stjórnvöld hafi lagt áherslu á að sem allra mest af þeim makrílafla sem veiðist hér við land fari til manneldis þannig að aflinn verði sem allra verðmætastur. Í samtölum Morgunblaðsins við forsvarsmenn stórra vinnslustöðva í gær kom fram að allt liti út fyrir að það hlutfall makríls sem færi í frystingu ykist úr 60% frá því í fyrra í hátt í 90% í ár. Til samanburðar má nefna að 2009 voru um 80% aflans brædd.