Rannsóknarskipið Árni Friðriksson kom til hafnar á mánudag eftir þriggja vikna leiðangur umhverfis landið þar sem svipast var um eftir uppsjávartegundum, þar á meðal makrílnum sem hélt sig að mestu fjarri Íslandsmiðum á síðasta ári.

„Við urðum vör við makríl á fleiri stöðum núna, sérstaklega fyrir austan landið, en það var lítill þéttleiki. Mikið minni þéttleiki en á árum áður,“ segir Anna Heiða Ólafsdóttir leiðangursstjóri.

„Í raun og veru erum við að fá það sama og skipin, sem er gott,“ segir Anna Heiða. „Veiðiskipin leita líka og leita og finna hann ekki, sem segir bara það sama. Það er mikið minna magn að koma hingað. Þetta er miklu minna magn heldur en var í áratug á undan.“

Hún segir að örfáir fiskar hafi reyndar veiðst fyrir vestan land líka.

„Held við höfum fengið fimm fiska þar á þremur stöðum, stóra og pattaralega en þetta er ekkert magn.“

Stór og feit loðna

Til nokkurra tíðanda dró þó þegar togað var sitt hvoru megin við landhelgislínu Íslands og Grænlands. Þar veiddist stór og kynþroska loðna í þremur yfirborðstogum, og kom sá fengur töluvert á óvart: „Þetta er óvænt á þessum árstíma. Flest ár sést eitthvað af lítilli og ókynþroska loðnu í sumaruppsjávarleiðangri en ekki stór og kynþroska fiskur,“ segir á bloggsíðu leiðangursins, en eins og undanfarin ár héldu leiðangursmenn úti bloggi þar sem fylgjast mátti með framvindunni.

Hlutfall kynþroska loðnu reyndist á bilinu 47% til 100% en hlutfall hænga, af kynþroska fiski, var frá 19% til 57%. Þetta var þó ekki loðna sem hrygnir bráðlega, að því er segir í blogginu.

„Loðnan var almennt í góðum holdum og voru margir fiskar með góða magafylli. Það eina sem ekki kemur á óvart var hitastigið á togdýpinu sem var frá 1.2 °C til 2.1 °C.“

Stór stofn væntanlegur

Að sögn Guðmundar J. Óskarssonar, sviðsstjóra uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, segir að í sjálfu sér sé ekki hægt að lesa nein tíðindi úr þessu. Þetta segi til dæmis ekkert um magn loðnu, enda liggja engar nýjar mælingar fyrir.

„Hún er bara þarna, en miðað við fyrri mælingar væntum við þess að stór hrygningarstofn sé að koma inn í vetur. Þetta bara tengist því.“

Núll ára kolmunni

Annað sem kom á óvart í leiðangrinum var að 2021 árgangur kolmunna var áberandi fyrir sunnan landið.

„Það kom á óvart, hefur einu sinni gerst áður, það var 2011,“ segir Anna Heiða. „Við fengum líka út af Vesturlandi mikið af núll ára kolmunna. Það hefur verið lítið af kolmunna undanfarin ár þannig að kannski er þetta byrjunin á því að hann gangi aftur meira hingað.“

Ásamt Íslendingum taka Norðmenn, Færeyingar og Danir þátt í uppsjávarleiðangri sumarsins. Norðmenn eiga enn eftir að klára sína yfirferð, en síðan verður unnið úr upplýsingunum í þriðju viku ágúst og nýtt stofnmat kynnt í lok mánaðarins.