Aflaverðmæti makríls árið 2011 var tæplega 18 milljarðar króna sem er 128% aukning frá árinu 2010. Talið er að aflaverðmæti makrílsins fyrir árið í ár verði um 23 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í ítarlegri skýrslu Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg sem gefin var út á fimmtudag og fjallað var um í úttekt í Viðskiptablaðinu sama dag.

Rétt er að rifja upp að það var ekki fyrr en árið 2008 sem makrílaflinn fór að gilda verulega þegar horft er til heildaraflaverðmætis sjávarafurða. Makríllinn er um þessar mundir verðmætasta útflutningstegund Íslendinga eftir því sem fram kemur í skýrslunni.

Heilfrystur makríll skilaði um 40% hærra verði 2011 að meðaltali en árið á undan. Meðalverð á makríl fór úr 157 kr./kg árið 2010 í 220 kr./kg árið 2011. Það má því segja að tugir milljarða hafi óvænt siglt inn í íslenskt hagkerfi með tilkomu makrílsins. Það skýrist að nokkru leyti af breyttum sjávarhita og auknu fæðuframboði á ætisslóðum við Ísland.

Stærsti hluti alls makríls sem landað er hér á landi er frystur, eða 87%. Af þessum 87% voru 47% fryst um borð í vinnsluskipum og frystitogurum en 40% voru fryst í landi.

Í skýrslunni er þó réttilega bent á að ekki hefur enn náðst samkomulag á milli strandríkjanna fjögurra, Íslands, Noregs, Færeyja og Rússlands, auk ESB um heildstæða stjórnun makrílveiða. Það er lítið sem gefur til að kynna að sátt sé í sjónmáli og skýrsluhöfundar telja líklegt að án sáttar sé hætta á því að of mikið verði veitt úr stofninum á næstu árum.