„Í sjávarútvegsfyrirtækjunum er það kannski markverðast að eiginfjárstaðan er víða orðin góð og fjárfesting í nýjum skipum, sem er orðin alveg bráðnauðsynleg, er farin að taka við sér,“ segir Bjarki Vigfússon, hagfræðingur, í samtali við Fréttablaðið .

Bjarki og Haukur Már Gestsson, sem einnig er hagfræðingur, unnu úttekt á íslenskum sjávarútvegi sem ber yfirskriftina „Sjávarklasinn á Íslandi: Efnahagsleg umsvif og afkoma 2013“ þar sem umfang og afkoma íslensks sjávarútvegs er tekin fyrir. Kemur þar meðal annars fram að makríll hafi fært þjóðarbúinu um 100 milljarða króna í auknar útflutningstekjur frá árinu 2007.

Eiginfjárstaða íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hefur frá þessum tíma einnig náð miklum viðsnúningi, en hún er nú jákvæð um 107 milljarða króna. Í lok hrunársins var hún hins vegar neikvæð um 80 milljarða króna. Er það endurskipulagningu fyrirtækjanna og niðurgreiðslu skulda að þakka.

Í úttektinni er jafnframt bent á að nýsmíði skipa sendi jákvæð skilaboð um bætta hráefnanýtingu og aukna verðmætasköpun, sem birtist meðal annars í breyttum áherslum í vinnslu uppsjávarfisks til manneldis og aukinni ferskfiskvinnslu bolfisks síðustu misserin.