*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 14. apríl 2020 14:18

Makrílreikningur ekki sendur skattgreiðendum

Verði ríkið dæmt til að greiða útgerðunum bætur vegna úthlutunar makrílkvóta mun hann enda á greininni segir fjármálaráðherra.

Jóhann Óli Eiðsson
Eyþór Árnason

Reikningur vegna mögulegrar niðurstöðu í makrílmálunum verður ekki sendur á skattgreiðendur heldur mun upphæðin koma frá greininni. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í umræðum á Alþingi nú rétt í þessu. 

Sagt var frá því um helgina að sjö útgerðir krefðust samtals 10,2 milljarða króna, auk hæstu mögulegu vaxta og dráttarvaxta, vegna ólögmætrar úthlutunar á hlutdeild í makríl á árunum 2011-18. Áður hefur bótaskylda ríkisins, vegna mögulegs fjártjóns, verið staðfest í Hæstarétti en það var gert með tveimur dómum í desember 2018. 

Í ræðu sinni sagði Bjarni að fiskveiðistjórnunarkerfið væri ekki náttúrulögmál heldur væri það mannanna verk. Aðgangur að auðlindinni, stjórnun veiða og sjálfbærni hennar væru mál sem væru ráðin til lykta inn í þingsal. 

„Möguleg innbyrðis togstreiga milli útgerða vegna úthlutunar aflaheimilda verður ekki leyst á kostnað skattgreiðenda,“ sagði Bjarni.

Ríkið hefur tekið til varna í málunum og sagði Bjarni að hann hefði góðar væntingar um að ríkið myndi hafa sigur í málunum. Ef úrslit málanna yrðu á annan veg myndi reikningurinn hins vegar ekki lenda á borgurum landsins.

„Reikningur vegna makrílmálanna verður ekki sendur á skattgreiðendur. Reikningurinn kemur frá greininni,“ sagði Bjarni.

Stikkorð: Makríll Makríll Makríll