„Nú er makrílvertíðin að hefjast hjá Síldarvinnslunni en gert hefur verið ráð fyrir að vinnsla á makrílnum hæfist 20. júlí og er ljóst að það mun standast,“ segir á vef Síldarvinnslunnar hf.

„Fullráðið er fyrir vertíðina í fiskiðjuverið í Neskaupstað, en þar verður unnið á þrískiptum vöktum. Fjögur skip munu  landa afla sínum til vinnslu í fiskiðjuverinu og eru það Börkur NK, Beitir NK, Bjarni Ólafsson AK og Margrét EA.“

Greint er frá því að Margrét hafi byrjað makrílveiðar á miðvikudag og sé væntanleg til Neskaupstaðar í fyrramálið með 840 tonn.

„Við tókum fyrsta holið á miðvikudagsmorgun suður af Vestmannaeyjum og fengum þá 300 tonn. Næstu þrjú hol voru tekin á sömu slóðum og þau gáfu miklu minna eða 80, 110 og síðan einungis 20 tonn. Þá færðum við okkur austar og tókum tvö hol utan í Kötlugrunni og upp í kantinn. Þá fengum við fyrst 190 tonn eftir að hafa togað í tvo tíma og þrjú korter og síðan 120 tonn,“ er haft eftir Birki Hreinssyni, skipstjóra á Margréti.

„Segja má að þessi fyrsta veiðiferð makrílvertíðarinnar hafi blessast vel og hér um borð eru allir afskaplega ánægðir með að vera komnir á sjóinn aftur. Við komum til Akureyrar að lokinni kolmunnaveiði hinn 14. maí og síðan hefur skipið legið. Það var því löng bið eftir að komast til veiða á ný. Það er erfitt að gera sér grein fyrir því hve mikill makríll er á ferðinni við landið. Hann blossar upp á tilteknu svæði og svo hverfur hann – eina stundina er mokveiði, en lítið að hafa þá næstu. Svona er þetta bara,“ segir Birkir.

Þá segir að Beitir hafi byrjað makrílveiðar í gærmorgun og Börkur muni hefja veiðar í dag. Bjarni Ólafsson sé að verða klár til að halda til veiða.

Víkingur með 790 tonn
HB Grandi greinir síðan frá því að von sé á Víkingi AK til Vopnafjarðar nú síðdegis með um 790 tonn af makríl.

Þetta er önnur veiðiferð skipsins en áður hefur Venus NS landað tvívegis á Vopnafirði þannig að makrílvinnsla er komin í fullan gang hjá upppsjávarfrystihúsi HB Granda á staðnum.

„Vertíðin fer betur af stað nú en í fyrra,“ segir Hjalti Einarsson, skipstjóri á Víkingi, en hann segir þó erfitt að ráða í vertíðarbyrjunina.

„Hitaskilin eru nú mun vestar en fyrri ár en við höfum mest verið að veiðum suður af Vestmannaeyjum. Sjávarhitinn er um 11-12 gráður og aflinn hefur sveiflast mjög mikið. Stundum höfum við fengið góð hol en svo lítið sem ekkert þess á milli. Við hefðum gjarnan viljað finna makríl í veiðanlegu magni austar en menn hafa ekki gefið sér nægan tíma til að leita nægilega vel. Svo liggur munurinn milli ára e.t.v. í því að sumarið í ár er mun bjartara og hlýrra en sumarið í fyrra,“ segir Hjalti Einarsson.

HB Grandi segir ennfremur að líkt og undanfarin ár gangi makríllinn upp með vestur- og austurströnd landsins. Vart hafi orðið við makríl inni á höfnum á Suðurnesjum en ekki hafi heyrst af því að uppsjávarskip hafi fengið afla vestanlands.

Svo sem oft áður eigi makríllinn það til að ganga á síldarslóð en Hjalti segir að það hafi gengið blessunarlega vel að forðast að fá síld með makrílnum sem aukaafla í þessari veiðiferð.