Mál Applicon gegn sérstökum saksóknara verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Applicon óskaði fyrst eftir lögbannsbeiðni hjá sýslumanninum i Reykjavík vegna ólögmætra nota Seðlabanka Íslands á SAP viðskiptamannakerfi Applicon. Því var hafnað í lok júní síðastliðnum þar sem upplýst var að Seðlabankinn væri ekki lengur með gögnin undir höndum heldur hefði vísað málinu áfram til sérstaks saksóknara.

Þá var farið fram á lögbannsbeiðni á notkun sérstaks saksóknara á sama kerfi í ljósi þess að notkun þess bryti í bága við höfundarréttarlög. Þeirri beiðni var hafnað af sýslumanni 20. ágúst. Þá ákvað Applicon að stefna sérstökum saksóknara.

Málið tengist rannsókn Seðlabankans á meintum brotum stjórnenda Samherja á gjaldeyrisreglum. Þá voru bókhaldsgögn fyrirtækisins afrituð í heild á harðan disk. Þar á meðal voru læst bókhaldsgögn félaga sem ekki tengdust rannsókninni samkvæmt húsleitarheimild sem Seðlabankinn fékk hjá Héraðsdómi Reykjavikur í mars 2012.

Applicon telur að með aðgerðum sínum hafi Seðlabanki Íslands jafnframt komist yfir frumkóða þessara viðskiptamannakerfa, sem voru í eigu Applicon.