Mál ákæruvaldsins gegn Baldri Guðlaugssyni, fyrrum ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, verður tekið fyrir í Hæstarétti næstkomandi miðvikudag, 25. janúar. Dómarar í málinu verða Viðar Már Matthíasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Garðar Gíslason, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir. Mál af þessu tagi hefur ekki áður komið inn á borð Hæstaréttar.

Baldur var í héraðsdómi dæmdur í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi vegna innherjasvika og brota í opinberu starfi. Hann seldi hlutabréf sín í Landsbankanum að andvirði 192 milljónir króna í september 2008, skömmu fyrir fall bankans. Þá sat Baldur í sérstökum aðgerðahópi stjórnvalda um fjármálastöðugleika.