Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í dag að vísa tveimur málum gegn Íslandi til EFTA dómstólsins. Er ástæðan sögð að hvorki íslensk lög né stjórnsýsluframkvæmd varðandi eftirlit með flutningi á hættulegum farmi og tæknilegt eftirlit á vegum með aksturshæfni vöruflutningabifreiða standist EES kröfur.

Í tilkynningu frá Eftirlitsstofnun EFTA segir að málið snúist annars vegar um ranga innleiðingu á tilskipun um samræmt eftirlit með flutningi á hættulegum farmi á vegum, og hins vegar tilskipun um tæknilegt eftirlit á vegum með aksturshæfni vöruflutningabifreiða.

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að Íslandi hafi ítrekað verið gefinn kostur á úrbótum og að koma röksemdum sínum á framfæri. Ísland hafi þó ekki innleitt tilskipanirnar á fullnægjandi hátt og verður málinu því vísað til EFTA dómstólsins.