Opinbera hlutafélagið Isavia nýtur núllskatts, það er félagið getur fengið endurgreiddan virðisaukaskatt af aðkeyptum vörum og þjónustu en þarf ekki að standa skil á útskatti. Þetta er niðurstaða yfirskattanefndar sem sneri með því úrskurði Skattsins.

Deilan hafði staðið yfir frá virðisaukaskattskýrslu tímabilið september-október 2016. Lögum um virðisaukaskatt var breytt meðan málið stóð yfir til að taka af allan vafa um að félagið nyti þessa réttar. Sú breyting tók aftur á móti ekki gildi fyrr en í byrjun árs 2019. Taldi Isavia sig eiga inni 5,2 milljarða króna hjá eiganda sínum vegna virðisaukaskattskýrslna sem hafnað hafði verið.

Niðurstaða Skattsins byggði á því að rekstur Isavia á Keflavíkurflugvelli gæti ekki tekist í samkeppni við atvinnufyrirtæki í skilningi laga um virðisaukaskatt þar sem sú samkeppni þyrfti að fara fram innanlands. Isavia byggði á móti á því og taldi að félagið ætti í hellings samkeppni en hún ætti sér stað við aðra flugvelli.

„Að virtum skýringum [Isavia] um starfsemi félagsins og rekstraraðstæður þykir mega ganga út frá því að rekstraraðilar alþjóðaflugvalla, sem ætlað er að standa undir notendatengdri gjaldtöku, svo sem á við um [Isavia], geti talist eiga í samkeppni sín í milli um viðskipti flugrekenda. Taka má undir það með [Isavia] að í þessum efnum verði einkum horft til þjónustuhlutverks Keflavíkurflugvallar vegna viðkomufarþega á flugleiðum yfir Norður-Atlantshaf,“ segir í niðurstöðukafla nefndarinnar.

Ekki öll kurl komin til grafar

Í úrskurði nefndarinnar er enn fremur vikið að lagabreytingunni áramótin 2018-19 en þar segir að með henni hafi „vilji löggjafans staðið til þess að slá í gadda því sem talin var viðurkennd skattframkvæmd“. Rétt er að taka fram að eldri virðisaukaskattskýrslur Isavia höfðu verið samþykktar athugasemdalaust. Að mati nefndarinnar var þessi breyting til þess fallin að renna stoðum undir kröfugerð Isavia.

Kröfugerð Isavia hljóðaði upp á það að innsendar skýrslur félagsins yrðu lagðar til grundvallar við virðisaukaskattskil tímabilanna. Á þetta féllst nefndin ekki enda fékk hún ekki betur séð en að „ekki [væru] öll kurl komin til grafar um skattuppgjör [Isavia] með tilliti til virðisaukaskatts af blandaðri starfsemi félagsins“. Var úrskurður Skattsins því felldur úr gildi og málinu vísað aftur til embættisins.

Isavia hafði farið fram á það að fá greiddan málskostnað fyrir nefndinni. Því var hafnað með þeim rökum að engin gögn um kostnað hefur verið lögð fram og að starfsmaður Isavia hefði gætt hagsmuna félagsins fyrir nefndinni. Þar væri á ferð „óbeinn kostnaður“ vegna vinnu starfsmannsins við málareksturinn en slíkt gæti ekki talist málskostnaður samkvæmt starfsreglum nefndarinnar.

Undanfarið ár hefur hlutafé í Isavia verið aukið um alls nítján milljarða króna. Í ársreikningum félagsins hefur ekki verið tekið tillit til úrskurðar Skattsins heldur málsins getið í athugasemdum. Ef niðurstaðan verður sú að félagið tapar málinu mun það þýða að áhrif á rekstur og efnahag yrðu neikvæð um 862 milljónir, varanlegir rekstrarfjármunir myndu hækka um 4,6 milljarða en skammtímakröfur lækka sem því nemur. Eigin fé myndi síðan lækka um 690 milljónir króna að teknu tilliti til skattáhrifa.