Endurupptökunefnd hefur samþykkt að taka upp að nýju mál Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Tryggva Jónssonar og Kristínar Jóhannesdóttur sem snýr að skattalagabroti í rekstri Baugs og fjárfestingafélagsins Gaums.

Þremenningarnar voru árið 2012 dæmd til refsingar og greiðslu sekta og sakarkostnaðar vegna brotsins en hafði áður einnig verið gert að greiða sektir við úrskurð yfirskattanefndar árið 2007.

Málið var tekið fyrir á vettvangi Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn þeim Jóni Ásgeiri, Tryggva og Kristínu með því að refsa þeim tvívegis vegna sömu háttseminnar.

Í umfjöllun endurupptökunefndar segir að skilyrði hafi verið uppfyllt fyrir endurupptöku þar sem verulegir gallar hafi verið á meðferð máls þannig að það hafi haft áhrif á niðurstöðu þess.