Hæstiréttur sneri í vikunni úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, sem hafði vísað frá máli LBI (gamla Landsbankans) á hendur fyrrverandi bankastjórum Landsbankans, fjórum fyrrum bankaráðsmönnum og fyrrverandi forstöðumanni fjárstýringar bankans auk erlendra vátryggingafélaga sem höfðu gefið út ábyrgðartryggingar fyrir fólkið.

Héraðdsómur hafði vísað málinu frá vegna þess að dómarinn taldi málið vanreifað af hálfu Landsbankans að því er varðaði meint tjón bankans og sagði í úrskurðinum að grundvöllur fjárhæðar kröfugerðar hans væri í reynd getgátur. Er þar m.a. vísað til þess að þrotabú Landsbankans hefur höfðað mál til riftunar greiðslunum sem um ræðir og því sé ekki vitað hvert raunverulegt tjón þrotabúsins sé.

Málið snýst um greiðslur sem Landsbankinn innti af hendi greiðslur við verðbréfasjóði Landsvaka, Straums-Burðaráss og MP Banka þann 6. október 2008.

Lagði sóknaraðili fram við þingfestingu málsins fjölda skjala í því skyni að færa sönnur á að hann hafi átt í svo miklum fjárhagserfiðleikum þegar 3. október 2008 að bankaráðsmenn, bankastjórar og forstöðumaður fjárstýringar hans hafi vitað eða mátt vita að hann gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar og væri því ógjaldfær. Í dómi Hæstaréttar segir að ekki sé unnt að gera þá kröfu til Landsbankans að hann hafi þegar í stefnu brugðist við hugsanlegum vörnum af hálfu varnaraðila, enda sé ekkert því til fyrirstöðu að sóknaraðili geri það með öflun frekari sönnunargagna undir rekstri málsins. Segir í dómnum að þótt ætluð bótaskylda varnaraðila sé ekki enn til orðin þá séu ekki efni til að vísa málinu frá héraðsdómi.

Stefndu í málinu eru þau Sigurjón Þ. Árnason, Halldór J. Kristjánsson, Kjartan Gunnarsson, Andri Sveinsson, Þorgeir Baldursson, Svafa Grönfeldt og Jón Þorsteinn Oddleifsson auk fjölda erlendra tryggingafélaga.