Aðalmeðferð í skuldamáli Lánasjóðs íslenskra námsmanna gegn ekkju og sex börnum Steingríms Hermannssonar, fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, hefst Héraðsdómi Reykjavíkur eftir tíu daga.

Steingrímur, sem lést fyrir að verða fimm árum síðan, var ábyrgðamaður að námsláni sem sonur hans Steingrímur Neil Hermannsson, tók hjá LÍN á árunum 1983 til 1988. Í maí í fyrra greindi Viðskiptablaðið frá því að lánið stæði í 12 milljónum króna.

Á vefsíðu Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að málið sé höfðað gegn Steingrími Neil, John Bryan og Elleni Herdísi, en þetta eru börn sem Steingrímur eignaðist með Söru Jane Donovan. Einnig er málið höfðað gegn Eddu Guðmundsdóttur, sem Steingrímur kvæntist árið 1962 og þremur börnum þeirra þeim Hermanni Ölvir, Hlíf og Guðmundi Steingrímssyni, sem í dag er formaður Bjartrar framtíðar og situr á Alþingi.

Mánuði eftir að Steingrímur lést lenti sonur hans Steingrímur Neil í vanskilum með afborganir af láninu. Erfingjar Steingríms fengu ekki að vita af vanskilum og gjaldfellingu lánsins fyrr en tæpum þremur árum síðar. Í Viðskiptablaðinu í maí sagði lögmaður erfingja Steingríms að margt væri skrýtið við kröfu LÍN. Hann sagðist efast um að Steingrímur Neil hafi skilið innheimtuviðvaranir, þar sem hann væri bandarískur ríkisborgari sem hvorki talaði né skildi íslensku.