Samkvæmt tilkynningu frá Eddu útgáfu hf. hefur tekist samkomulag milli Ólafsfells ehf., félags í eigu Björgólfs Guðmundssonar, og Máls og menningar - Heimskringlu ehf. um kaup þeirra síðarnefndu á allri almennri bókaútgáfu Eddu útgáfu. Kaupin er gerð með fyrirvara, meðal annars um samþykki félagsráð MMH. Kaupverð verður ekki gefið upp. Jafnframt hefur verið ákveðið að bókaklúbbar Eddu verði sjálfstæð rekstrareining í eigu Ólafsfells.

"Edda útgáfa hf ber höfuð og herðar yfir önnur fyrirtæki í bókaútgáfu hér á landi og hefur verið leiðandi á íslenskum bókamarkaði. Bækur félagsins hafa verið gefnar út undir merkjum Máls og menningar, Vöku-Helgafells, Iðunnar, Forlagsins og Almenna bókafélagsins. Auk þess hefur félagið verið öflugt í kortaútgáfu og rekið Réttindastofu sem komið hefur á ótalmörgum samningum um útgáfu á íslenskum skáldverkum erlendis. Velta almennu bókaútgáfunnar var á síðasta ári um 950 milljónir.
Árni Einarsson verður forstjóri útgáfunnar.

Bókaklúbbar Eddu hafa um skeið verið reknir sem sjálfstæð eining innan Eddu útgáfu hf og hefur verið stöðugur vöxtur hjá klúbbunum og félagafjöldi hefur tvöfaldast frá árinu 2002. Meðal klúbbanna má nefna kiljuklúbbinn Ugluna, Stóra bókaklúbbinn, Nýtt-útlit, Hugmyndabanka heimilanna, Disneyklúbbinn og myndasögublöðin Andrés Önd og Galdrastelpur. Í sjálfstæðu félagi stefna bókaklúbbarnir að auknu samstarfi við allar helstu bókaútgáfur landsins og bjóða þannig meðlimum sínum upp á enn betra úrval bóka. Velta bókaklúbbanna á síðasta ári nam 370 milljónum króna.
Kristinn Arnarson sem stýrt hefur bókaklúbbum Eddu um árabil mun stýra því félagi.

Áætlað er að formlegur aðskilnaður félaganna verði þann 1. október n.k. Allt núverandi starfsfólk Eddu mun fá störf hjá hinum nýju félögum," segir í tilkynningunni.