Dómari í máli Páls Heimissonar, sem sakaður er um að hafa dregið að sér 19,4 milljónir króna af kreditkorti á kennitölu Sjálfstæðisflokksins, telur ólíklegt að málið kæmist á dagskrá fyrr en með haustinu, vegna anna í dómstólum í vor.

Þetta kom fram við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Morgunblaðið greinir frá.

Verjandi Páls sagði að Páll ætti erfitt með að komast til landsins fyrr en í fyrsta lagi í lok júní og sagði dómari þá að það kæmi ekki að sök. Fram kemur að í frétt Morgunblaðsins að verjandi Páls hafi skorað á ákæruvaldið að leggja fram reikningsyfirlit um VISA-greiðslukort sem Páll hafði til afnota árin 2008-2010. Fulltrúi sérstaks saksóknara, sem gaf út ákæruna, sagðist ekki hafa yfirlitið undir höndum og var gefinn viku frestur til að taka afstöðu til kröfunnar.

Sérstakur saksóknari ákærði Pál fyrir umboðssvik í desember í fyrra en Páll er í dag búsettur í Rúmeníu. Hann neitar sök í málinu. Hann var ritari íhaldshóps Norðurlandaráðs og er sakaður um að hafa í 321 skipti notað kreditkort, sem skráð var á kennitölu Sjálfstæðisflokksins, á árunum 2009 til 2011 fyrir um 19 milljónir króna.